BRENNIVÍN TIL SÍÐUSTU STUNDAR

Víða um Evrópu greip sig ofurótti sumarið 1910 þegar fregnir bárust af því að halastjarna Halleys myndi rekast á jörðina og valda heimsendi.
"Það er verið að byggja Gasstöðina hér í Reykjavík þetta sama sumar," segir Stefán Pálsson sagnfræðingur, sem heldur erindi um sögu Gasstöðvarinnar á ráðstefnu í tilfeni hálfrar aldar afmælis Borgarskjalasafnsins í dag. "Það varð frægt í bæjarslúðrinu að einhverjir hafi tekið með sér brennivín í Gasstöðina þegar heimsendir var í nánd og hafst þar við fram að lokastundinni."
    Það segir sitthvað um samfélag þess tíma að tólf metra hár stálgeymir þótti nógu sterklegur til að verjast heimsendi. "Þetta líktist litlum olíutanki í dag og enginn hefði trú á að hann myndi veita mikla vörn. Þetta ber með sér anda einfalds samfélags þar sem tvílyft hús þóttu tilkomumikil."
    Stefán bætir því reyndar við að heimildirnar fyrir þessu séu fáar. "Ég talaði á sínum tíma við eldra fólk, en þetta var alltaf dálítið á flökkusagnastiginu. Það var aldrei neinn sem hafði þessa sögu frá fyrstu hendi, heldur var um að ræða nágranna afans eða eitthvað slíkt."
    Síðan 1910 hefur lítið verið um að fólk hafi streymt í byrgi eða á aðra örugga staði til að verjast heimsendi og því má segja að Íslendingar taki sögusögnum um slíkt með rósemd. "Ég tel það vera heilbrigðisvottorð á samfélag að það sé erfitt að hræða fólk."
Heimild: Fréttablaðið, 13. mars 2004.
(Vefur Fréttablaðsins: http://www.frettabladid.is )

TIL BAKA